eso1702is — Fréttatilkynning

VLT leitar að reikistjörnum í Alfa Centauri kerfinu

ESO gerir samning við Breakthrough Initiatives

9. janúar 2017

ESO hefur gert samning við Breakthrough Initiatives um að aðlaga tækjabúnað Very Large Telescope í Chile til leitar að reikistjörnum við næstu stjörnu, Alfa Centauri. Slíkar reikistjörnur gætu orðið viðfangsefni agnarsmárra geimkanna Breakthrough Starshot verkefnisins.

Samingur á milli ESO og Breakthrough Initiatives var undirritaður af Tim de Zeeuw, framkvæmdarstjóra ESO, og Pete Worden, stjórnarformanns Breakthrough Prize Foundation og framkvæmdarstjóra Breakthrough Initiatives. Samningurinn felur í sig fjármögnun á uppfærslu VISIR (VLT Imager and Spectrometer for mid-infrared) mælitækisins á Very Large Telescope (VLT) ESO til þess að efla getu þess til að leita að mögulega lífvænlegum reikistjörnum í kringum Alfa Centauri, nálægasta stjörnukerfinu við Jörðina. Samningurinn innfelur líka mælingatíma í sjónaukanum til að leyfa nákvæma leit sem hefst árið 2019.

Árið 2016 fannst reikistjarnan Proxima b í kringum Proxima Centauri, þriðju og daufustu stjörnuna í Alfa Centauri kerfinu sem hvetur menn til frekari leitar.

Að finna nálægustu fjarreikistjörnurnar er mikilvægt fyrir Breakthrough Starshot verkefnið, sem hleypt var af stokkunum í apríl 2016 og snýst um að sýna fram á fýsileika gríðarhraðra ljósknúinna „nanókanna“ fyrir fyrsta ferðalagið til Alfa Centauri í náinni framtíð.

Leit að lífvænlegum reikistjörnum er mjög erfið vegna birtunnar frá móðurstjörnunni í sólkerfinu sem yfirgnæfir daufa birtu reikistjarnanna. Ein leið til þess er að gera mælingar á mið-innrauðum bylgjulengdum þar sem hitageislun frá reikistjörnunni dregur verulega úr birtumuninum á milli hennar og móðurstjörnunnar. Í mið-innrauðu ljósi er stjarnan þrátt fyrir það milljón sinnum bjartari en reikistjarnan sem verið er að mæla, svo beita þarf sérstakri tækni til að draga úr glýju stjörnunnar.

Mið-innrauða mælitækið VISIR á VLT er fært um slíkar mælingar ef greinigeta þess verður betrumbætt með aðlögunarsjóntækni og notuð verður kórónusjá til að skyggja á stjörnuna og draga þannig hugsanlegar bergreikistjörnur fram. Breakthrough Initiatives mun greiða fyrir stóran hluta af þeim kostnaði sem fylgir nýrri tækni og þróun hennar en ESO veitir sjónaukana og mælingatímann.

Nýi búnaðurinn felur í sér tækjaeiningu sem smíðuð er af Kampf Telescope Optics (KTO) í Munchen og samanstendur af bylgjunema og nýjum stillibúnaði. Að auki eru áætlanir uppi um nýja kórónusjá sem þróuð verður í samstarfi Liège háskóla í Belgíu og Uppsala háskóla í Svíþjóð.

Að finna og rannsaka hugsanlega lífvænlegar reikistjörnur í kringum aðrar stjörnur er eitt helsta markmið European Extremely Large Telescope (E-ELT). Þótt E-ELT verði miklu stærri, sem er nauðsynlegt til að taka myndir af fjarreikistjörnum, dugir greinigeta VLT til að taka myndir af reikistjörnu í kringum nálægustu stjörnuna, Alfa Centauri.

Þróun á VISIR gagnast líka hinu fyrirhugaða METIS tæki sem verður á E-ELT því hægt verður að yfirfæra þekkinguna sem verður til beint á næstu kynslóð tækja. Stærð E-ELT ætti að gera METIS kleift að greina og rannsaka fjarreikistjörnur á stærð við Mars á braut um Alfa Centauri, ef þær eru til, sem og aðrar hugsanlega lífævnlegar reikistjörnur í kringum aðrar nálægar stjörnur.

Frekari upplýsingar

Breakthrough Initiative er vísinda- og tækniverkefni sem sett var á laggirnar árið 2016 af fjárfestinum og vísindaáhugamanninum Yuri Milner til að kanna alheiminn, leita að vísbendingum um líf utan Jarðar og hvetja almenning til að taka þátt í umræðum um stöðu okkar í alheiminum.

Breakthrough Starshot er 100 milljón dala rannsókna- og tækniverkefni sem snýst um að sýna fram á nýja tækni sem gerir örsmáum, fisléttum og ómönnuðum könnunarförum kleift að ná 20% af ljóshraða og leggja grunninn að ferðalagi til Alfa Centauri í náinni framtíð.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Markus Kasper
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6359
Tölvupóstur: mkasper@eso.org

Breakthrough Initiatives
Tölvupóstur: media@breakthroughprize.org

Janet Wootten
Rubenstein Communications, Inc.
Sími: +1 212 843 8024
Tölvupóstur: jwootten@rubenstein.com

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1702.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1702is
Nafn:Alpha Centauri
Tegund:Milky Way : Star : Circumstellar Material : Planetary System
Facility:Very Large Telescope

Myndir

The Very Large Telescope and the star system Alpha Centauri
The Very Large Telescope and the star system Alpha Centauri
texti aðeins á ensku
The Alpha Centauri star system
The Alpha Centauri star system
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 91 Light: VLT to search for planets around Alpha Centauri (4K UHD)
ESOcast 91 Light: VLT to search for planets around Alpha Centauri (4K UHD)
texti aðeins á ensku